Hvað gerir vef að góðum vef?
Þessari spurningu skaut upp í kollinn á mér þegar ég var að lesa yfir tilnefningar til vefverðlauna SVEF eitt kvöldið. Vissulega flugu fleiri spurningar fram en ég kýs að viðurkenna á þessum tímapunkti, en þetta er spurningin sem mig langar að skoða betur.
Ef spurningunni er varpað fram í hóp fólks, þá koma væntanlega nokkur svör: Vel hannaður, stílaður fyrir markhópinn, hraðvirkur, aðlagar sig að búnaðinum sem hann er skoðaður á (e. responsive), tekur tillit til þess hvort notandinn er á ljósleiðaratengingu eða 3G tengingu (eða þaðan af verra) og svo framvegis.
Ef við þrengjum áheyrendahópinn og spyrjum hóp af forriturum, þá má búast við að fá svör í áttina við: Engar javascript villur, stenst HTML validation og fær háa einkunn í Google Pagespeed, á meðan aðgengissérfræðingar myndu leggja fram kröfur um WCAG stöðlun og usability sérfræðingar færu að tala um framsetningu, flæði og „usability“ (sorry, ég bara veit ekki hvernig ég á að orða það á íslensku).
En hvað gerir þá vef að góðum vef?
Byrjum á byrjuninni. Hönnun skiptir hérna stóru máli og mikilvægt að hún sé nægilega sveigjanleg til að geta tekið mið af fjölbreytileika þess efnis sem vefurinn hefur upp á að bjóða. Svo ýkt dæmi séu notuð, þá skiptir máli að vefur sem býður upp á mikið af texta og tölum sé ekki að vinna út frá hönnunarlegum markmiðum fyrir margmiðlunarvef og svo framvegis.
Hraði skiptir máli. En hraði er tæknilega flókið fyrirbæri þar sem taka þarf tillit til margra mismunandi þátta sem ná yfir vefþjóninn sjálfan og þann vélbúnað og hugbúnað sem hann tengist, nettengingar í vélasal og hjá endanotanda, búnaður endanotanda (tölva, spjaldtölva, sími), vafri, álag á sameiginlegu neti, staðsetning notandans, stærðir á myndum og margt annað.
Villur, eða ölluheldur, villuleysi skiptir máli. HTML5 staðallinn, eins góður og hann er orðinn í dag, er ekki fullkominn og það sem verra er, vafrarnir sem túlka staðalinn eru það ekki heldur. Þegar horft er dýpra í þennan þátt komum við að því að vefurinn þarf að virka í tugum mismunandi vafraútgáfum á nokkrum mismundi platformum. Það getur verið erfitt að prófa vefinn á öllu úrvalinu, en þá komum við að því að ef vefurinn er villulaus þegar kemur að HMLT5 kóðanum, þá minnka líkurnar á „mistúlkun“ í vafranum.
Javascript villur eru enn erfiðari að þessu leyti, þar sem sumir vafrar og þá sérstaklega Internet Explorer, þurfa oft á tíðum á einhverjum sérlausnum að halda til að koma í veg fyrir villur sem ekki eru sýnilegar nema prófað sé fyrir þeim sérstaklega.
Aðgengisstaðlar eru það sem fæstir hugsa um frá byrjun, en þar sem vefir eru oft á tíðum besta leiðin fyrir marga til að afla sér upplýsinga eða nýta sér þjónustu, þá er sérstaklega mikilvægt að allir vefir sem ætlaðir eru til kynningar eða sölu á þjónustu taki tillit til þess að það nota ekki allir skjá og mús við að lesa texta eða fylla út form.
Erum við að nálgast niðurstöðu?
Góður vefur tekur mið af öllum þessum þáttum. Bestu lausnirnar eru þær þar sem augljóst er að hönnuðir, forritarar, vefstjórar og ritstjórar hafa unnið saman að því að búa til lausn sem uppfyllir allar þessar kröfur eftir bestu getu þeirra sem koma að framleiðslunni.
Vissulega eru alltaf tilfelli þar sem ekki þarf að taka tillit til ákveðinna þátta, en jafnvel þá þarf að hugsa sig um tvisvar.
Sem dæmi má nefna að það kemur flestum á óvart hvað margir vefir eru slæmir um leið og það er búið að skera netbandvíddina niður í 3G.
Lokaorð
Vefbransinn á Íslandi hefur náð mjög langt á síðustu árum og hefur vefhönnun sérstaklega náð góðum árangri og það er frábært fyrir alla sem starfa í geiranum.
Hinsvegar er það alveg jafn mikilvægt að aðrir sem starfa í geiranum taki virkan þátt í umræðunni og að úr verði sameiginlegt átak meðal vefstofa og hugbúnaðarfyrirtækja á landinu, að hækka gæði tæknilegu afurðarinnar sem leikmaðurinn sér ekki með eigin augum, en finnur á eigin skinni ef sú vinna er ekki nægilega vel útfærð.
Að setja upp góðan vef er nefnilega gríðarlega flókið verkefni og verður það tæknilega flóknara með hverju árinu. Góður vefur verður því seint skilgreindur út frá hönnun einni saman, heldur ætti mikið frekar að horfa til samverkandi þátta hönnunar, tæknilegrar útfærslu, infrastrúkturs og efnis.