Skyggnst inn í þjóðarpúlsinn með Airserve
Nákvæmar rauntímamælingar Airserve hafa reynst viðskiptavinum okkar vel þegar kemur að auglýsingaherferðum en það er ekki það eina sem gerir Airserve skemmtilegt.
Airserve heldur utan um og mælir birtingar á vefborðum á vefmiðlum eins og frettabladid.is, visir.is, mbl.is og fleirum.
Nákvæmar rauntímamælingar Airserve hafa reynst viðskiptavinum okkar vel þegar kemur að auglýsingaherferðum en það er ekki það eina sem gerir Airserve skemmtilegt. Við hjá Overcast erum nefnilega í þeirri einstöku stöðu að hafa yfirsýn yfir u.þ.b. 50% allra vefauglýsinga sem birtast almenningi á Íslandi í gegnum Airserve.
Um leið og Airserve fór af stað fórum við að geta fylgst með birtingu vefborða og þar af leiðandi með umferð um þá vefmiðla sem birtingin er seld á. Fljótlega fórum við að sjá ákveðin munstur frá degi til dags. Hér er t.d. dæmigert mynstur á birtingafjölda yfir sólahring á virkum degi.
Dæmigerður sólahringur á virkum degi lítur þannig út að fólk vaknar og fer að vafra um netið. Umferðin nær hápunkti um hádegið og fer svo minnkandi fram að kvöldmat. Þegar börnin eru farin í háttinn tekur hún aftur við sér og hnígur svo hratt eftir klukkan 10. Svona virðist þetta ganga dag frá degi á virkum dögum. Helgarnar eru aðeins öðruvísi en þá er umferðin bæði minni og dreifðari yfir daginn sem er áhugaverð staðreynd út af fyrir sig.
En það sem við sáum ekki fyrir var að geta séð hluti sem minna helst á tölur frá veitunum um rafmagnsnotkun á aðfangadag eða um vatnsnotkun beint á eftir áramótaskaupinu. Fyrsta vísbendingin um þetta var einn daginn þegar við litum á umferðina og héldum að kannski hefði Airserve bilað hjá okkur, að það þyrfti að laga eitthvað. Það var þegar grafið leit svona út á 9. október 2017.
Eins og sjá má er augljóslega meiri umferð eftir kvöldmat en venjulega. Við höfðum að vísu fyrr um kvöldið unnið okkur rétt til þess að spila á HM í Rússlandi sumarið 2018 en dugir það til þess að skapa miklar sveiflur í birtingu auglýsinga á netinu? Skoðum málið aðeins nánar:
Umferðin dofnar sem sagt við upphaf leiksins, eykst verulega í hálfleik, hríðfellur svo við byrjun seinni hálfleiks, skýst svo aftur upp, tekur dýfu þegar viðtölin við leikmennina byrja og helst svo nokkuð stöðug þar til leikmennirnir mæta á Ingólfstorg rétt fyrir kl. 11.
En það er ekki aðeins fótbolti sem hefur áhrif á umferðina á vefmiðlunum. Mikilvægar fréttir og fréttaskýringarþættir geta nefnilega rétt eins gert það eins og sjá má af þessu grafi síðan í gær þegar Kveikur skýrði frá meintum mútugreiðslum Samherja í Namibíu:
Klukkan átta í gærkvöldi dettur umferðin sýnilega niður þegar Kveikur byrjar. Umferðin eykst lítillega á meðan Kveikur er í gangi en strax eftir þáttinn rýkur hún upp og helst há fram að 10-fréttum, en þá kemur mjög sýnileg dýfa í fjölda auglýsingabirtinga sem réttist af eftir 10-fréttirnar. Umferðin helst svo há fram til miðnættis þegar venjulega sólarhringssveiflan tekur við.
Af þessum dæmum má sem sagt sjá að með Airserve má taka þjóðarpúlsinn að einhverju leyti. Við bíðum spennt eftir næsta viðburði.