Góði Hirðirinn

  • Hönnun
  • Ráðgjöf
  • Bakendaforritun
  • Framendaforritun
  • Vefþjónustutengingar

Góði Hirðirinn er nytjamarkaður SORPU sem hefur það markmið að endurnýta og daga úr sóun. Netverslun Góða Hirðisins býður viðskiptavinum upp á að gramsa í allskyns gersemum sem þau hafa upp á að bjóða og gera góð kaup á sem þægilegastan og einfaldasta máta. Leynist grúskari í þér?

Ný og betri vefverslun

Góði Hirðirinn kom til okkar með hugmynd um nýja vefverslun. Þau höfðu rekið vefverslun í nokkur ár, sem þau höfðu þurft að loka, en vildu endurvekja hana. Eldra kerfið sem notað var hentaði illa fyrir verslun af þessu tagi, þar sem enginn lager er til heldur oftast bara eitt eintak af hverri vöru. Auk þess var boðið upp á mjög takmarkaðar leiðir til að halda utan um greiðsluupplýsingar, sem gat gert væntanlegum kaupendum erfitt fyrir.

Einfaldleiki, gleði og þægindi notenda

Markmiðið var að búa til vef sem virkar vel á símtækjum, einfaldar kaupflæði notanda og flýtir mikið fyrir innsetningu vara á vefinn, enda er það oft sá hluti vinnunnar sem tekur hvað mestan tíma. Hönnun vefsins fór öll fram innanhúss hjá Overcast, út frá fyrirliggjandi útliti Góða Hirðisins. Einfaldleiki, litir og gleði að ógleymdum spennandi vörum skapa skemmtilegan vef sem lumar á einhverju fyrir alla.

Sérsniðin lausn sem eykur afköst

Efnisinnsetning á vefinn varð að vera eins hraðvirk og hægt er, þar sem fyrir hverja vöru þarf að taka myndir af vörunni, verðmeta hana, skrifa lýsingu, flokka og setja í loftið. Því skipti miklu máli að ekki þyrfti að eyða tíma í að taka myndir og færa þær inn í tölvu til að koma þeim inn á vöruspjöld. Því var búin til "hraðinnsetningar" viðbót í Wagtail sem gerir starfsfólki Góða Hirðisins kleift að búa til vöruspjöld með því að taka myndir beint á snjallsíma sem hengjast þá sjálfkrafa við. Hægt er að klára vöruspjaldið í síma, eða vista það með myndunum og klára lýsingarnar á tölvu. Á þennan hátt var hægt að vinna samhliða við að koma inn efni, þar sem einn aðili gat tekið myndir og annar skrifað lýsingar og sett vörur í loftið. Þetta margfaldaði fjölda vara sem hægt var að koma inn á vefinn á dag.

Engin karfa, ekkert vesen

Greiðslur fyrir vörur voru vandamál í eldri vefverslun þar sem engin leið var að vista greiðsluupplýsingar viðskiptavina, sem þýddi að í hvert skipti sem kaup áttu sér stað þurfti að slá inn kortanúmer. Þetta veldur óþægindum og minnkar líkur á að fólk klári kaupin. Við leystum þetta vandamál með því að notast við Áskel, áskriftarkerfið okkar til að halda utan um greiðsluupplýsingar viðskiptavina. Þegar viðskiptavinur skráir sig inn á Góða Hirðinn er honum boðið að skrá greiðsluupplýsingar sínar einu sinni og eftir það er hægt að versla eins oft og viðkomandi vill, Áskell sér um að skuldfæra kortið fyrir kaupunum, senda út kvittanir og bóka reikninga í Business Central. Þar sem allar vörur hjá Góða Hirðinum eru einstakar, þá var einnig ákveðið að fara aðeins óvanalega leið og sleppa því að hafa körfu virkni á síðunni, heldur frekar notast við kauphnapp á hverri vöru sem þá skuldfærir kaupin strax. Þessari virkni hefur verið vel tekið.